„Sú ákvörðun var tekin þvert á nýleg álit skimunarráðs, embættis landlæknis, meirihluta fagráðs um leghálsskimanir og verkefnastjórnar um framkvæmd breytinga á krabbameinsskimunum.“
Þetta kemur fram í ályktun Samtaka yfirlækna á Landspítala um breytingar á skipulagi skimana fyrir leghálskrabbameini.
„Samtök yfirlækna á Landspítala (SYL) telja að það sé með ólíkindum að yfirvöld hafi hunsað álit áðurnefndra fagaðila og tekið þá ákvörðun að nýta ekki fullkominn nýjan búnað og faglega þekkingu á sýkla- og veirufræðideild Landspítala til HPV-greininga, sem og greiningarhæfi og faglega sérþekkingu meinafræðideildar til að sinna þessari mikilvægu heilbrigðisþjónustu,“ segir í tilkynningu til fjölmiðla.
Landspítalanum vel treystandi
„Greining á leghálsskimunarsýnum er algeng rannsókn og rannsóknadeildum Landspítalans er vel treystandi til að gera slíkar rannsóknir á sama hátt og aðrar flóknar rannsóknir. Gæði og öryggi slíkra rannsókna yrði að sjálfsögðu tryggt á sama hátt og fyrir aðrar rannsóknir sem framkvæmdar eru innan veggja Landspítalans.“
Samtökin fara fram á að óháðir aðilar geri úttekt á ferli málsins innan stjórnsýslunnar og segir í tilkynningunni að um vantraust stjórnvalda á íslenskum rannsóknarstofum sé að ræða.
„Spurningar vakna um hvað liggi til grundvallar þessari ákvörðun svo sem um vantraust stjórnvalda á íslenskum rannsóknastofum, ákvarðanir innan stjórnsýslunnar, sem eru ekki í samræmi við faglega ráðgjöf eða hvort aðrir hagsmunir ráði för. Samtök yfirlækna á Landspítala fara fram á að óháðir aðilar geri úttekt á ferli alls málsins innan stjórnsýslunnar,“ segir í tilkynningunni.

Töluvert hefur verið fjallað um ofangreinda ákvörðun stjórnvalda. Forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu baðst nýlega afsökunar á töfum við greiningu leghálssýna.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar lagði fram svipaða beiðni í vikunni en hún fer fram á að heilbrigðisráðherra vinni skýrslu fyrir Alþingi um forsendur og áhrif breytinga á skimun fyrir krabbameinum í leghálsi. Skýrslan verði unnin af óháðum aðila.