Þeim Antoni Rúnarssyni og Stiven Tobar Valencia var heitt í hamsi eftir að Valur glutraði niður sex marka forskoti undir lok leiks gegn KA á Akureyri í síðustu viku. Niðurstaðan varð jafntefli, 27-27.
Hér að neðan má sjá innslag úr Seinni bylgjunni þar sem sést til að mynda að Stiven sparkaði í og braut auglýsingaskilti á leið sinni af vellinum. Það sauð einnig á Antoni og liðsfélagar hans áttu fullt í fangi með að róa hann niður.
Í úrskurði aganefndar HSÍ kemur aðeins fram að þeir Anton og Stiven hafi hlotið útilokun vegna óíþróttamannslegrar hegðunar, og að þeir séu úrskurðaðir í eins leiks bann hvor. Athygli er þó vakin á stighækkandi áhrifum leikbanna.
Ámælisverð framganga Eyjamanns
Aganefnd úrskurðaði einnig um mál er varðar framkomu aðila á vegum ÍBV í garð dómara, eftir leik ÍBV og KA 15. febrúar. Þar unnu KA-menn eins marks sigur með umdeildu marki í blálokin.
Framganga Eyjamannsins var sannarlega ámælisverð að mati aganefndar en hún mun þó ekki aðhafast frekar í málinu. Að mati nefndarinnar er „varhugavert að slá því föstu, eins og málið liggur fyrir, að framkoman geti talist vítaverð eða hættuleg gagnvart dómurum leiksins, í skilningi 17. gr. reglugerðar HSÍ um agamál.“