Handbolti

Brösugur sigur hjá Börsungum í Za­greb | Ki­elce tapaði í Hvíta-Rúss­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron skoraði þrjú mörk í sigri Börsunga.
Aron skoraði þrjú mörk í sigri Börsunga. Martin Rose/Getty Images

Aron Pálmarsson og félagar í Barcelona eru hreint út sagt óstöðvandi á þessari leiktíð og vann liðið enn einn leikinn í kvöld. Sigvaldi Björn Guðjónsson lék með Kielce sem tapaði gegn Meshkov Brest. Um var að ræða leiki í Meistaradeild Evrópu.

Aron lét minna fara fyrir sér í kvöld er Barcelona heimsótti Zagreb í Króatíu heldur en í undanförnum leikjum þar sem hann hefur verið sjóðandi heitur. Hann skoraði þó þrjú mörk í fjögurra marka sigri Börsunga í kvöld, 37-33. Segja má að gestirnir frá Katalóníu hafi lent í kröppum dansi miðað við aðra leiki tímabilsins.

Staðan í hálfleik var 21-18 Börsungum í vil en heimamenn gerðu harða atlögu að forystu þeirra í síðari hálfleik. Það gekk þó ekki upp og Börsungar fara heim með stigin tvö.

Barcelona er því enn með fullt hús stiga þegar liðið hefur leikið 11 leiki í B-riðli Meistaradeildar Evrópu.

Sigvaldi Björn skoraði þrjú mörk í fimm marka tapi Kielce á útivelli egn Meshkov Brest, lokatölur 35-30 heimamönnum í vil.

Kielce er enn á toppi A-riðils með 15 stig líkt og Flensburg sem getur náð toppsætinu þar sem Þjóðverjarnir eiga leik inni. Brest er í þriðja sæti riðilsins með 11 stig að loknum 11 leikjum, leik meira en Kielce og tveimur meira en Flensburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×