Hafrannsóknastofnun leggur til að í stað 61 þúsund tonna verði leyfður loðnuafli á vertíðinni 127.300 tonn. Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var áætlað að í hlut Íslendinga kæmu um það bil 70 þúsund tonn. Áætla má að norsk, grænlensk og færeysk skip fái tæp 60 þúsund tonn.
„Við fögnum þessari aukningu og líka því sérstaklega að nú sé loksins búið að leyfa loðnuveiðar eftir tvö loðnuleysisár, þó að á sama tíma séum við með tárin í augunum yfir því hversu stór hluti loðnukvótans fer til annarra þjóða,“ segir Ægir Páll.
-En hversu verðmæt eru þessi 70 þúsund tonn sem fara í íslensk skip?
„Ég held að svona varlega áætlað gæti það verið vel yfir tíu milljarðar í útflutningsverðmæti.“

Uppsjávarveiðiskip Brims, Víkingur og Venus, hafa legið bundin við bryggju í Sundahöfn í Reykjavík undanfarnar tvær vikur. En þýðir þetta að þau fari strax til loðnuveiða á morgun?
„Nei. Við munum meta það. Við munum leitast við að veiða kvótann okkar á þeim tíma sem loðnan er verðmætust og við munum meta það eftir markaðsaðstæðum og hrognafyllingu loðnunnar.“
-Er það þá kannski um miðjan febrúar?
„Já, ég myndi áætla það. Innan tíu daga,“ svarar Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Brims.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: