Þetta herma heimildir fréttastofu en manninum var sleppt að loknum yfirheyrslum, en hann hefur réttarstöðu grunaðs í málinu. Á heimili hans fannst nokkuð magn af skotvopnum, meðal annars tveir 22 kalíbera rifflar, en talið er að slíku vopni hafi verið beitt á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra síðasta laugardag og á skrifstofur Samfylkingarinnar í síðustu viku. Þá herma heimildir enn fremur að maðurinn hafi lengi haft horn í síðu Samfylkingarinnar.
Skotárásir á skrifstofur stjórnmálaflokka virðast ekki nýjar af nálinni en fréttastofa hefur fengið upplýsingar um að skotið hafi verið í fjórgang á skrifstofur Sjálfstæðisflokksins í Valhöll á undanförnum tveimur árum. Ekki er vitað hvort þessi mál tengist.
Málin eru litin alvarlegum augum og í gær ákvað forsætisnefnd Reykjavíkurborgar að grípa til hertra öryggisráðstafana til að tryggja öryggi kjörinna fulltrúa. Að auki tóku allir átta stjórnmálaflokkar á þingi sig saman og sendu sameiginlegt bréf til ríkislögreglustjóra þar sem óskað var eftir fundi til þess að fara yfir öryggismál.
Farið er fram á að gerðar verði öryggisúttektir á skrifstofum allra flokka með tillögum til úrbóta, að komið verði fyrir öryggishnappi á skrifstofunum og að húsnæði flokkanna verði bætt í reglubundna vöktun lögreglunnar.
Fundurinn er fyrirhugaður á þriðjudag, samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra.
Uppfært:
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins þar sem fram kemur að viðkomandi sé í haldi . Tilkynninguna má sjá hér fyrir neðan:
Karlmaður á fimmtugsaldri er í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn hennar á skemmdum sem voru unnar á bifreið borgarstjóra og húsnæði Samfylkingarinnar á dögunum. Málið er litið mjög alvarlegum augum og hefur rannsókn þess verið í algjörum forgangi hjá embættinu.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.