Erlent

Biden biðst afsökunar vegna aðbúnaðar þjóðvarðliða

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Myndir af þjóðvarðliðum sem neyddust til að sofa á gólfi bílakjallara hafa vakið mikið umtal vestanhafs. 
Myndir af þjóðvarðliðum sem neyddust til að sofa á gólfi bílakjallara hafa vakið mikið umtal vestanhafs.  EPA/MICHAEL REYNOLDS

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur beðist afsökunar vegna aðbúnaðar liðsmanna í þjóðvarðliði Bandaríkjanna, sem stóðu vaktina við þinghúsið, sem neyddust til að sofa í bílakjallara.

Ríflega 25 þúsund þjóðvarðliðar stóðu vaktina í Washington DC á miðvikudaginn, daginn sem innsetningarathöfn Joe Biden fór fram, en óttast var að aftur kynnu að brjótast út óeirðir á borð við þær sem brutust út í og við þinghúsið tveimur vikum áður þegar æstur múgur braut sér leið inn í þinghúsið.

Myndir af hermönnunum þar sem þeir sofa á gólfi bílakjallara í nágrenni þinghússins hafa verið í mikilli dreifingu á netinu. Aðstæður þjóðvarðliðanna hafa vakið reiði meðal stjórnmálamanna, meðal annars nokkurra ríkisstjóra sem einhverjir kölluðu þjóðvarðliða frá sínum ríkjum heim vegna málsins.

Biden hringdi í yfirmann þjóðvarðliðsins í gær til að biðjast afsökunar og spurði hvað hægt væri að gera að því er fjölmiðlar vestanhafs greina frá. Þá mun forsetafrúin Jill Biden hafa farið í eigin persónu til að heilsa upp á nokkra þjóðvarðliða. Hún hafi þakkað þeim fyrir og fært þeim smákökur í boði Hvíta hússins.

„Ég vildi bara koma við í dag og segja takk við ykkur öll fyrir að tryggja öryggi mitt og fjölskyldu minnar,“ sagði Jill Biden.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×