Spánn hefur þar með unnið báða leiki sína eftir nokkuð óvænt jafntefli gegn Brasilíu í fyrstu umferð mótsins. Sigur dagsins var nokkuð þægilegur en leiknum lauk með 36-30 sigri Spánar. Angel Fernandez Perez fór mikinn í liði Spánar en hann skoraði tíu mörk. Hjá Túnis var Mohamed Amine Darmoul með átta mörk.
Króatar mörðu Katar með tveimur mörkum, 26-24, og tryggðu sér þar með toppsæti C-riðils. Leikurinn var nokkuð jafn en Króatar leiddu með tveimur mörkum í hálfleik, staðan þá 13-11.
Munurinn var kominn niður í eitt mark þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka en Króatar skoruðu næstu tvö mörk leiksins og unnu því sanngjarnan tveggja marka sigur að lokum.
Manuel Štrlek var markahæstur í liði Króatíu með sex mörk á meðan Frankis Carol Marzo skoraði sjö mörk í liði Túnis ásamt því að gefa sjö stoðsendingar.
Að lokum vann Barein sjö marka sigur á Kongó í D-riðli, lokatölur 34-27. Þar með endar Barein í 3. sæti riðilsins og kemst áfram í milliriðil. Halldór Jóhann Sigfússon er þjálfari liðsins og er þar með fjórði íslenski þjálfarinn sem kemst inn í milliriðil á mótinu.
Alfreð Gíslason [Þýskaland], Dagur Sigurðsson [Japan] og Guðmundur Guðmundsson [Ísland] höfðu þegar tryggt sér sæti í milliriðlum mótsins.