John Snorri og samferðamenn hans eru nú staddir í grunnbúðunum á K2, þar sem þeir hyggjast freista þess að vera með fyrstu mönnum til að standa á toppi fjallsins að vetri til. Aftakaveðri er hins vegar spáð.
„Við erum að undirbúa svona versta veðrið sem að við höfum upplifað örugglega hérna. Það verða 130km/klst hér í grunnbúðunum,“ segir John Snorri í samtali við fréttastofu.
Hópurinn frestaði för sinni lengra upp fjallið um helgina þegar Bandaríkjamaðurinn Alex Goldfarb týndist. Hann fannst látinn í gær.
„Hann var einn. Hann er á mjög erfiðum stað. Það er mjög erfitt að nálgast hann. Hann hefur greinilega hrapað á leiðinni upp á toppinn eða lent í snjóflóði og hann er undir snjóhengju í sextíu gráðu halla,“ segir John Snorri og bætir við að ólíklegt sé að hægt verði að nálgast hann.
„Var rétt á eftir mér“
Annar maður, Spánverjinn Sergi Mingote, lést í fjallinu um helgina.
„Hann var rétt á eftir mér. Hann var að fara svolítið hratt niður og eitthvað runnið til og ekki húkkaður í línuna og hann hrapaði 600 metra niður,“ segir John Snorri og bætir við að það sé alltaf erfitt að heyra af slysförum. Því miður séu þau þó oft óhjákvæmileg í þessum aðstæðum.
„Ég held það sé í öllum fjórum 8.000 metra fjöllunum sem ég hef klifrað, þá hafa alltaf einhverjir látist. Sumir eru meira að segja notaðir sem kennileiti. Það versta í þessu er kannski þegar maður er í fjallinu og maður sér fólk hrapa. Það tekur á.“
Partur af fjöllunum
Sjálfur segist John upplifa sig sem part af fjöllunum og ætlar að halda áfram á meðan hann hefur stuðning fjölskyldu sinnar. Hann bindur vonir við að geta staðið á toppnum fyrir lok mánaðar.
„Það gæti mögulega verið 26. eða 27. janúar en veðrið breytist ofsalega hratt hérna og síðast þegar við vorum uppi í fjallinu þá breyttist veðrið það mikið að við urðum bara, við töldum okkur ekki getafarið á toppinn. Það var of mikil áhætta. Enda þeir sem komust á toppinn frusu í andliti og frusu á tánum.“
Hægt er að fylgjast með ferðalaginu á Facebook-síðu Johns Snorra.