Forsætisráðherra verður gestur Heimis Más Péturssonar fréttamanns í síðustu Víglínunni sem verður í opinni dagskrá klukkan 17:40 en á morgun verður Stöð 2 alfarið áskriftarstöð. Það eru mörg stór mál sem bíða afgreiðslu á komandi þingi.

Fyrir utan stjórnarskrárbreytingar verður frumvarp umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð að teljast með þeim umdeildustu en það eru fleiri mál undir. Þá verður rætt við forsætisráðherra um viðbrögð stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum á landamærunum en mörgum finnst að þar hefði mátt gera betur.
Í seinni hluta Víglínunnar mætast þeir Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar til að ræða meðal annars framboðsmál fyrir komandi alþingiskosningar í september.

Ásmundur Einar hefur ákveðið að flytja sig úr norðvesturkjördæmi og ætlar að bjóða sig fram í Reykjavík norður. En Framsóknarflokkurinn hefur átt erfitt uppdráttar í höfuborginni í undanförnum kosningum og littlu mátti muna að Lilja Alfreðsdóttir næði ekki á þing í Reykjavík suður í síðustu kosningum.
Þá hefur Samfylkingin farið óvenjulega leið til að velja frambjóðendur í Reykjavík. Flokksmenn þar gátu tilnefnt frambjóðendur sem síðan verður stillt upp á lista án þess að fylgi við hvern og einn þeirra verði opinberað.
Við ræðum þessi mál við þá Loga og Ásmund Einar en einnig frammistöðu ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum. Ekki hvað síst í viðbrögðum við kórónuveirufaraldrinum.
Víglínan er í opinni dagskrá í dag á Stöð 2 og Vísi klukkan 17:40.