Enski boltinn

Marka­súpa í fyrsta sigur­leik Stóra Sam með WBA

Anton Ingi Leifsson skrifar
WBA menn fagna jöfnunarmarki Ajayi.
WBA menn fagna jöfnunarmarki Ajayi. Adrian Dennis/PA Images

Það rigndi inn mörkunum er Sam Allardyce stýrði WBA til sigurs í fyrsta sinn eftir að hafa tekið við liðinu í síðasta mánuði. WBA hafði betur gegn Wolves, á útivelli, 2-3 eftir að hafa verið 2-1 undir í leikhlé.

Það voru liðnar átta mínútur er dæmd var vítaspyrna. Matheus Pereira steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Hinn ungi Fabio Silva jafnaði svo metin á 38. mínútu og fimm mínútum kom Willy Boly Wolves yfir eftir hornspyrnu.

2-1 í leikhlé en síðari hálfleikur var einungis sjö mínútna gamall er Semi Ajayi jafnaði metin eftir langt innkast. Kyle Bartley fleytti boltanum áfram og Ajayi heldur áfram að skora fyrir WBA.

Sigurmarkið kom svo úr annarri vítaspyrnu WBA. Matheus Pereira steig á punktinn á 56. mínútu og skoraði aftur af miklu öryggi. Úlfarnir fengu færin til þess að jafna en allt kom fyrir ekki og mikilvægur sigur nýliðanna.

WBA er því með ellefu stig í nítjánda sætinu, þremur stigum frá Brighton sem er í sautjánda sætinu, en það gengur ekki né rekur hjá Úlfunum sem eru í fjórtánda sætinu með 22 stig. Þeir eru án sigurs í síðustu sex deildarleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×