Enski boltinn

Fergu­son elskaði Hender­son og sér eftir því að hafa ekki keypt hann

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/AP

Sir Alex Ferguson, fyrrum stjóri Manchester United, segir það hafi verið mistök af sinni hálfu að festa ekki kaup á Jordan Henderson er Ferguson var stjóri Man. United og Henderson var á mála hjá Sunderland.

Hinn þrítugi Henderson var ofarlega á lista Ferguson en eftir samræður við læknateymi Manchester United ákvað Ferguson að hætta við að kaupa miðjumanninn. Læknateymið hafði nefnilega áhyggjur af hlaupastíl Henderson sem lyfti enska meistaratitlinum í vor.

„Við vorum tilbúnir að bjóða í Jordan Henderson hjá sunderland og ég talaði við Steve Bruce sem elskaði hann,“ sagði Ferguson í hlaðvarpinu A Team Talk With Legends. „Svo kom læknateymið og sagði að þeir væru ekki ánægðir með hlaupastílinn hans og hann gæti orðið meiðslahrjáður.“

Henderson var á mála hjá Sunderland þangað til árið 2011 er hann gekk í raðir Liverpool. Sir Alex stýrði United frá 1986 til 2013.

„Ég verð að segja að það er eitt af verkefnum mínum að sjá til þess að leikmaðurinn er klár. Ef þú krækir í leikmann sem getur ekki spilað fyrir þig, þá er þetta eyðsla á tíma svo ég varð að taka ákvörðun.“

„Við elskuðum hann sem leikmann og hann hefur sýnt það núna, hann hefur verið frábær og sögurnar sem ég heyri sýna það að ég hef misst af mjög góðum leikmanni,“ bætti Ferguson við.

Henderson mun leiða meistarana út á völlinn á morgun er toppliðið Manchester United kemur í heimsókn. Flautað verður til leiks klukkan 16.30 og fylgst verður með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×