Guðmundur tók við íslenska landsliðinu í þriðja sinn á ferlinum árið 2018. Markmiðið var að koma Íslandi í hóp átta bestu landsliða heims en er það raunhæft markmið í Egyptalandi?
„Ég held að það sé vænlegast fyrir okkur eins og svo oft áður að byrja þetta mót og taka eitt skref í einu án þess að við förum að ræða of mikið um framhaldið. Ef við förum upp úr riðlinum – sem er auðvitað okkar markmið – þá erum við að fara mæta mjög sterkum þjóðum eins og Frökkum, Þjóðverjum og Austurríki,“ sagði Guðmundur í viðtali fyrir mótið.
„Held það sé ærið verkefnið fyrir okkur eins og staðan er í dag. Við erum ennþá í uppbyggingarfasa. Það sem hefur gerst núna er eiginlega það að Guðjón Valur [Sigurðsson] er hættur og Aron [Pálmarsson] er ekki með okkur þannig við erum hér allt í einu með frekar reynslulítið lið að mörgu leyti og ungt.“
„Það er svona svolítið viðkvæmur punktur akkúrat núna finnst mér,“ sagði þjálfari Íslands að endingu.
Viðtalið við Guðmund má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan.