Þegar við vorum á Flateyri fyrr í vetur að mynda nemendur Lýðskólans koma úr sjóferð tókum við eftir því að ungmennin fóru að fiskeldiskví á bryggjunni. Erindið var að tína krækling undan kvínni sem þau ætluðu að elda sér í matinn – þó ekki afurð meðvitaðs kræklingaeldis, en þetta var sýnt í fréttum Stöðvar 2.
„Nei, þetta er aukaafurð sem fylgir fiskeldinu,“ segir Gísli Jón Kristjánsson, skipstjóri og eigandi Fiskeldis ÍS47 ehf., sem elur regnbogasilung í Önundarfirði, um leið og hann hvetur nemendur til að ná sér í meiri krækling.

„Eldið eykur lífríkið þannig að kræklingurinn kemur bara. Ásetan kemur og hann bara stækkar mjög grimmt.“
Fiskeldismenn nýta hins vegar ekki kræklinginn sem þannig vex undir kvíunum.
„Þú þarf að fara í gegnum tvær-þrjár stofnanir til að mega rækta þetta til manneldis.“
-En krakkarnir mega tína þetta?
„Já, já. Þau mega fara í fjörurnar hérna og tína. Þau mega fara á bryggjuna hérna og tína. Það er enginn sem bannar það.“

Gísli Jón kveðst engar áhyggjur hafa af því hvort varasamt geti verið að borða kræklinginn og rifjar upp þá þumalfingursreglu að óhætt sé að tína krækling í þeim mánuðum sem hafa bókstafinn R í nafninu.
„Ég spái aldrei í það. Ég borða þetta bara. Vestfirðirnir eru svo hreinir, sko. Hér er ekkert eitur,“ segir Gísli og hlær.
„Kræklingur er vannýtt tegund á Íslandi og það er bara í framtíðinni. Við tökum það næst. Þegar við erum búin að byggja upp fiskeldið þá förum við í kræklinginn.“
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Árið 2012 fjallaði Stöð 2 um tilraun bónda í Gilsfirði til að koma á fót kræklingarækt: