Tékkar verða að minnsta kosti án þjálfaranna, þeirra Daniel Kubes og Jan Filip, í leikjum sínum við Færeyjar í undankeppni EM, á morgun og á laugardaginn. Markmannsþjálfarinn Peter Stochl og Pavel Pauza, þjálfari unglingalandsliðs Tékka, munu stýra liðinu í þeim leikjum.
Það verður svo að koma í ljós hvort Kubes og Filip verða á hliðarlínunni í leikjum Tékka á HM, en þeir mæta Svíþjóð í fyrsta leik þann 14. janúar. Tvíeykið er í einangrun en hefur undirbúið liðið sitt í gegnum tölvusamskipti.
Fyrsta markmið mitt að verða frískur
Filip hefur ekki fundið fyrir einkennum en Kubes er veikur: „Ég verð að segja að ég er veikur. Ef ég á að vera heiðarlegur þá er fyrsta markmið mitt núna bara það að verða frískur. Það þarf að taka þennan sjúkdóm alvarlega. Ef ég verð hress eftir fimm daga þá væri það frábært. Ef ég verð hress eftir tíu daga þá væri það gott. Ef það tekur 20 daga þá verð ég samt glaður yfir að verða frískur,“ er haft eftir Kubes á heimasíðu tékkneska handknattleikssambandsins.
Þjálfararnir fengu jákvæða niðurstöðu úr smitprófi 2. janúar. Enginn leikmanna tékkneska liðsins hefur greinst með veiruna í kjölfarið, en nokkrir þeirra eru búnir að fá veiruna á síðasta ári.