Gilbert Ó Guðjónsson, úrsmiður og eigandi verslunarinnar, segir í samtali við fréttastofunni að maðurinn hafi gert tvær tilraunir til að brjóta glerið.
„Hann kom tvisvar. Þetta var hálf sjö að morgni. Það er voðalega skrítið að menn séu að reyna svona á þessum tíma dags. Það er komin hreyfing á borgina. Við horfðum á því í vídeói að hann tók sér einhverja pásu á meðan hjólreiðamaður fór þarna fram hjá og annan mann ganga fram hjá,“ segir Gilbert.

„Kerfið fór svo í gang þegar hann kom aftur. Í fyrra skiptið setti hann ekki einu sinni kerfið í gang, það var ekki meiri kraftur í honum en það að kerfið fór ekki í gang. Svo kom hann í seinna skiptið með ágætis gangstéttarhellu sem hann henti í rúðuna og þá kom stærra brot en ekki nóg. Þetta er skothelt gler og þolir ansi mikið,“ segir Gilbert.
Málið er nú til skoðunar hjá lögreglunni en að sögn Gilberts þekkti lögreglufólkið manninn, en hann náðist á mynd í öryggismyndavélum búðarinnar.
Þetta er annað skiptið á árinu sem tilraun hefur verið gerð til að brjótast inn í úrverslun Gilberts. Fyrst var það í september, en Gilbert segir að innbrotum í skartgripa- og úrverslanir á Laugavegi hafi fjölgað á liðnu ári, þau séu um fimmtán eða sextán talsins. Hann telur að rekja megi það til þess að minna líf sé í miðborginni og færri á ferli, sem gefi óprúttnum aðilum tækifæri til þess að athafna sig.