Yfir þúsund manns hafa skráð sig í almenna skimun fyrir kórónuveirunni sem hófst í Vestmannaeyjum í morgun, þar sem faraldur veirunnar hefur verið afar skæður. Umdæmislæknir sóttvarna segir sýnatökur fara hratt og vel af stað.
Skimunin er á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Vestmannaeyjabæjar og Íslenskrar erfðagreiningar en opnað var fyrir tímabókanir á vef þeirrar síðarnefndu fyrr í vikunni.
Hjörtur Kristjánsson umdæmislæknir sóttvarna hjá HSU var önnum kafinn við sýnatökur í Eyjum þegar fréttastofa náði tali af honum nú fyrir hádegi. Hann segir að gríðarlega góð skráning sé í sýnatökur, sem standa munu yfir næstu daga í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum.
„Það fylltist strax. [...] Við erum með aðeins styttri dag í dag af því að við erum að taka sérstaklega þá sem eru í sóttkví í sýnatöku í dag. En lengsti dagurinn sem stendur er á morgun og við erum svona að velta fyrir okkur að færa til laugardaginn út af veðurspá, þannig að það gæti verið að það lengist þá í hinum dögunum. En á næstu þremur dögum erum við að fara að taka rúmlega þúsund sýni. Við tökum einn fjórða af Vestmannaeyingum.“
Skimunin hófst klukkan tíu í morgun, „á hálfum hraða" að sögn Hjartar, en strax á ellefta tímanum var sýnatakan komin á fullt skrið.
„Þetta byrjar vel, það er fullt af fólki að vinna við þetta, þess vegna gengur þetta svona hratt. Við erum að taka 25 sýni á korteri,“ segir Hjörtur.

Faraldur kórónuveiru hefur verið skæður í Eyjum en í gær voru smit þar orðin alls 66. Þá verður hert samkomubann, þar sem fleiri en tíu er meinað að koma saman, í gildi í Eyjum fram yfir páska hið minnsta. Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum segir þó góðan anda í bænum þrátt fyrir allt.
„Það er verið að setja þessar reglur í okkar þágu og fólk er bara að fara eftir því. Það hlýðir því sem það á að gera og hlýðir Víði,“ segir Íris.