Elon Musk hyggst gefa New York hundruð öndunarvéla til þess að bregðast við þeim skorti sem er í ríkinu. Ríkisstjórinn Andrew Cuomo sagði ríkið þurfa þrjátíu þúsund öndunarvélar til þess að búa sig undir hápunkt kórónuveirufaraldursins sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.
Öndunarvélarnar verða fluttar á sjúkrahús víðsvegar um New York en ríkið hefur farið einna verst út úr faraldrinum. Flest tilfelli sjúkdómsins í Bandaríkjunum hafa komið upp í New York og eru 519 látnir í ríkinu, en alls hafa 1.588 látist á landsvísu.
Sjá einnig: Trump efast um þörf fyrir mikinn fjölda öndunarvéla
Andrew Cuomo ríkisstjóri segir þörf fyrir 87 þúsund sjúkrarúm, 37 þúsund gjörgæslurúm og 26 þúsund öndunarvélar umfram það sem fyrir er vegna þess álags sem kórónufaraldurinn skapar.
„Við erum afar þakklát. Við þurfum hverja einustu öndunarvél sem við getum fengið næstu vikur til þess að bjarga lífum,“ skrifaði Cuomo á Twitter þar sem hann þakkaði Musk fyrir framtakið.
I spoke with @elonmusk late last night. He s donating hundreds of ventilators to New York City and State, including our public hospitals. We re deeply grateful. We need every ventilator we can get our hands on these next few weeks to save lives.
— Mayor Bill de Blasio (@NYCMayor) March 27, 2020
Musk hefur nú þegar keypt 1.255 öndunarvélar frá þremur framleiðendum og mun Tesla gefa allar öndunarvélar, sama hvort fyrirtækið kaupi þær eða framleiði þær. Fyrirtækið muni bjóða fram alla hjálp sem það getur.
Bandaríkin tróna nú á toppi landalistans yfir greind kórónuveirutilfelli, með alls 101.652 tilfelli, sem eru fleiri en hafa greinst í Kína þar sem talið er að kórónuveiran hafi átt upptök sín.