Steinunn er fyrirliði Fram sem varð deildar- og bikarmeistari í vor. Hún lék alla átján leiki Fram í Olís-deildinni og skoraði 96 mörk auk þess að vera í lykilhlutverki í vörn liðsins.
Steinunn var kjörin besti leikmaður ársins og besti varnarmaðurinn auk þess að vera í liði ársins hjá Seinni bylgjunni.
Steinunn, sem er 29 ára, hefur leikið 35 landsleiki og skorað í þeim 27 mörk. Þess má geta að hún var valin íþróttakona Reykjavíkur í síðustu viku.
Aron leikur með Barcelona sem varð þrefaldur meistari á síðasta tímabili auk þess sem Börsungar komust í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu sem verður leikin milli jóla og nýárs.
Aron var í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu sem lenti í 11. sæti á EM í janúar. Hann átti meðal annars stórkostlegan leik í sigrinum á Dönum, 31-30, í fyrsta leik mótsins þar sem hann skoraði tíu mörk og gaf níu stoðsendingar.
Aron, sem er þrítugur, er fyrirliði landsliðsins í dag og hefur alls leikið 149 landsleiki og skorað 579 mörk. Hann hefur leikið með landsliðinu síðan 2008 og sem atvinnumaður erlendis síðan 2009.