Langflest húsin sem hafa hrunið eða horfið í aurskriðunum á Seyðisfirði síðustu daga stóðu við Hafnargötu, en þetta eru hús þar númer 6, 16D, 24. 25,26,28,29,31,32,34,38 A og B og 37. Þá færðist Austurvegur 38A 50 metra úr stað.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi segir að enn sé verið að rýna gögn er varða stöðugleika á svæðinu. Samkvæmt mati þyki rétt að halda rýmingu áfram óbreyttri til morguns. Búast má við frekari upplýsingum um hádegið á morgun.
Þar sem tilkynningar þessar hafa á stundum dregist miðað við upphafleg áform þá er næsta tilkynning tímasett klukkan 12 á morgun. Liggi fyrir tíðindi fyrir þann tíma munu þau send án tafar.
Sérfræðingar náttúruhamfarasjóðs er komnir til bæjarins til að kanna tjónið og starfsfhópur á vegum ríkistjórnarinnar hefur verið skipaður.
„Það er of snemmt að segja til um hversu mikið tjónið er en það er augljóst að það er gríðarlegt. Reynsla mín af svona atburðum er að það muni taka marga mánuði eða ár að meta tjónið til fulls. Langtímauppbygging á svona atburðum horfir til fimm ára,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislörgreglustjóra.
Víðir hefur ekki tölu á hversu margar fjölskyldur hafa misst aleiguna.

„Það er verið að fara yfir stöðuna með hverri einustu fjölskyldu og sveitarfélagið leiðir þá vinnu fyrir okkur. Það eru allir komnir í bráðabirgðahúsnæði yfir hátíðarnar og svo verður fundið lausnir fyrir fólk í framhaldinu,“ segir Víðir.
Mesta menningartjón í tíu ár
Það er ekki aðeins tjón á íbúðarhúsnæði heldur er tjón á menningarverðmætum eitt það mesta sem hefur orðið á landinu síðasta áratug. Tækniminjasafnið var til að mynda í nokkrum húsum við Hafnargötu.

„Skipasmíðastöðin er farin, renniverkstæðið er farið og prentsmiðjan að því ég best veit líka. Það þarf svo að skoða í framhaldinu hvort það verður endurbyggt og hvort það verður á sama svæði og áður,“ segir María Karen Sigurðardóttir formaður Bláa skjaldarins og deildarstjóri hjá Borgarsögusafni.
„Nú er lagt uppúr því að hægt sé að komast um svæðið og bjarga persónulegum eigum fjölskyldna og svo þarf að reyna að koma menningarverðmætum þannig fyrir að hægt verði að komast að þeim síðar ef það tekst ekki að bjarga þeim núna,“ segir hún.
Hún segir að von sé á þjóðminjaverði á staðinn eftir áramót ásamt starfsfólki frá Minjastofnun sem muni meta aðstæður. Það muni taka fagfólk mörg ár að reyna að reyna að bjarga þeim menningarverðmætum sem þarna eru.
„Það er svo mikið af þessum hlutum undir aur og bleytu. Það er þó nokkuð um menningarminjar þarna sem er úr járni en ef um pappír og viðkvæmari efni er að ræða þá eru hlutir fljótir að skemmast. Best er ef það myndi frjósa, þá varðveitist það betur,“ segir hún.
„Þetta er náttúrulega vinna sem mun taka nokkur ár og eitthvað er alveg farið eða skemmt en við munum reyna hvað við getum að bjarga menningarverðmætum,“ segir María Karen.