Skoðun

Enn af and­vara­leysi Al­þingis gagn­vart utan­ríkis­málum

Vilborg Ása Guðjónsdóttir skrifar

Í lok þessarar viku eru sjö mánuðir frá því að utanríkismál voru síðast á dagskrá Alþingis. Meira en hálft ár. Það er ef frá er talin 30 mínútna umræða um græna utanríkisstefnu í október sl. sem þrír þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku þátt í. Viðbrögð við yfirstandandi heimsfaraldri hafa vissulega þurft að vera í forgrunni í störfum þingsins frá því í vor. Faraldurinn hefur hins vegar einnig mikil áhrif á utanríkismál Íslands sem hafa líklega sjaldan verið mikilvægari.

Þær áskoranir sem heimurinn stóð frammi fyrir áður en faraldurinn skall á eru enn stærri og erfiðari viðureignar nú og nýjar áskoranir hafa bæst við. Það á við hvort sem litið er til heilbrigðismála, heimsviðskipta, öryggis- og varnarmála, mannréttinda-, þróunar- og umhverfismála, matvælaöryggis eða lýðræðisþróunar. Þessu til viðbótar hefur fráfarandi forseti Bandaríkjanna, helsta bandalagsríkis Íslands á sviði öryggis- og varnarmála, varið síðustu fjórum árum í að grafa undan samvinnu vestrænna ríkja á öllum sviðum alþjóðlegs samstarfs og veikt þannig getu þeirra til að takast á við ofangreindar áskoranir.

Alþjóðleg þróun hefur óumdeilanlega bein áhrif á hagsmuni og velferð Íslands, efnahagslega stöðu og öryggi. Í alþjóðavæddum heimi á smáríki eins og Ísland enn fremur allt undir öflugu fjölþjóðasamstarfi og virðingu fyrir alþjóðalögum.

Alþingi þarf að vera meðvitað um þá stöðu sem nú blasir við þjóðum heims og geta tekist á við breytta heimsmynd að faraldrinum yfirstöðnum. Til þess þarf málaflokkurinn að vera reglulega á dagskrá.

Það er full ástæða til að kalla eftir umræðu á Alþingi með þátttöku utanríkisráðherra um þær áskoranir sem blasa við í íslenskum utanríkismálum vegna og í kjölfar heimsfaraldursins. Varpa þarf ljósi á álitamál og veita ráðherra aðhald í störfum sínum á þessum sérstaka tíma.

Höfundur er alþjóðastjórnmálafræðingur og fv. ráðgjafi í alþjóðadeild Alþingis.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×