Neyðarástand er yfirvofandi hjá Landhelgisgæslunni vegna verkfalls flugvirkja. Sú staða blasir við að þyrlufloti gæslunnar stöðvist á næstu dögum. Rætt verður við Georg Kr. Lárusson, forstjóra Landhelgisgæslunnar, í beinni útsendingu í fréttatíma Stöðvar 2.
Þá verður rætt við Ólaf Þór Gunnarsson, þingmann Vinstri grænna, sem segir ekki hafa verið hugað nægilega vel að áformum um öldrunarþjónustu í tengslum við nýjan Landspítala.
Einnig heyrum við í lögmanni Michelle Ballarin en búið er að höfða tvö dómsmál gegn félögum hennar. Annað snýr að notkun á markaðsefni sem annar aðili telur sig eiga og hitt um vangoldin laun.
Í fréttatímanum tökum við að auki stöðuna á þróun bóluefnis, heyrum í þunguðum konum sem vonast til að fara ekki í fæðingu fyrr en eftir áramót til að fá fleiri mánuði í fæðingarorlof og hittum borgarstarfsmenn sem hafa tekið að sér heimilisstörf í neyðarskýlum og hringt í eldri borgara á meðan vinnustaðir þeirra eru lokaðir í faraldrinum.
Þetta og margt fleira í kvöldfréttum á samtengdum rásum Stöðvar 2, Bylgjunnar og á Vísi kl. 18:30.