Lögregla í Frakklandi hefur handtekið 47 ára karlmann vegna gruns um að tengjast hryðjuverkaárásinni í Nice í gær. Er hinn handtekni grunaður um að hafa aðstoðað hryðjuverkamanninn við undirbúning árásarinnar.
Franskir fjölmiðlar segja manninn hafa verið handtekinn í gærkvöldi, en hann á að hafa verið í samskiptum við hinn 21 árs gamla árásarmann daginn fyrir árásina.
Árásarmaðurinn er grunaður um að hafa drepið þrjá í og við Notre Dame kirkjuna í Nice í gærmorgun, en hann liggur nú sjálfur á sjúkrahúsi eftir að hafa við skotinn af lögreglu.
Í átökum við lögreglu á maðurinn að hafa hrópað „allahu akbar“, sem þýðir „guð er mikill“. Var hann með fjölda hnífa og eintak af kóraninum í fórum sínum.
Árásarmaðurinn er frá Túnis og á nýlega að hafa komið til Frakklands frá ítölsku eyjunni Lampedusa.
Hæsta viðbúnaðarstigi vegna hryðjuverkahættu hefur verið komið á í Frakklandi í kjölfar árásarinnar.