Engar vísbendingar eru um að starfsmenn Landakots hafi haldið gleðskap áður en hópsýking kom þar upp fyrir helgi. Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns á upplýsingafundi almannavarna vegna kórónuveirunnar í dag.
Forsvarsmenn Landspítala voru spurðir á upplýsingafundi í gær hvort grunur væri um að hópsýkingin tengdist starfsmannafögnuði á Landakoti. Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómadeildar sagðist ekki geta tekið undir slíkt. Alls konar kjaftagangur hefði farið á flug en spítalinn væri að glíma við útbreiðslu smitsins og reyna að ná tökum á því.
Víðir var inntur eftir því á fundinum í dag hvort hinn meinti gleðskapur væri til skoðunar hjá almannavörnum.
„Það var enginn gleðskapur starfsmanna,“ sagði Víðir. „Við könnuðum þennan orðróm sem okkur barst í gær og það eru engar upplýsingar um það að einhvern gleðskap starfsmanna á Landakoti hafi verið um að ræða, þannig að það var ekkert skoðað frekar.“
79 smit hafa nú verið rakin til hópsýkingar Covid-19 á Landakoti. Þar af eru 20 starfsmenn Landspítala og 32 sjúklingar á Landakoti. Páll Matthíasson forstjóri Landspítala sagði á fundinum í dag að bæst gæti við þessa tölu smitaðra í sjúklingahópnum.