Ísfirðingar og aðrir íbúar á norðanverðum Vestfjörðum, sem óku um Dýrafjarðargöng í gær, uppgötvuðu margir óvænt nýjan möguleika sem jarðgöngin skapa. Í fyrsta sinn verður hægt að aka um þjóðvegakerfið að fossinum Dynjanda um hávetur auk þess sem leiðin hefur styst verulega.
Fossinn er í botni Arnarfjarðar, á milli Hrafnseyrarheiðar og Dynjandisheiðar, og því hefur landleiðin að Dynjanda lokast þegar heiðarnar verða ófærar. Í fyrravetur voru heiðarnar til dæmis lokaðar samfellt í hartnær fimm mánuði, frá miðjum desember og fram til 8. maí í vor.
„Við vorum þrír í bílnum og ætluðum að snúa við hjá Mjólkárvirkjun þegar okkur datt í hug að keyra aðeins lengra og kíkja á fossinn Dynjanda,“ segir Eggert Stefánsson, rafeindavirki frá Þingeyri, sem búsettur er á Ísafirði, en hann tók meðfylgjandi myndir.

„Margir sneru við hjá Mjólká en það voru líka margir sem óku áfram að Dynjanda. Ég giska á að margir hafi verið að sjá Dynjanda í fyrsta sinn á þessum árstíma,“ segir Eggert, sem reyndar vegna starfa sinnar hefur þurft að fara í Arnarfjörð að vetrarlagi og komið að Dynjanda í klakaböndum.
„Ég er viss um að margir eigi eftir að nýta sér þetta, að skreppa að Dynjanda og sjá fossinn í klakaböndum þegar fer að frysta. Það er dálítið glæsilegt.“

Vegalengdin milli Ísafjarðar og Dynjanda um Hrafnseyrarheiði er 87 kílómetrar en styttist niður í tæpa 60 kílómetra með Dýrafjarðargöngum. Næsta haust verður leiðin á milli auk þess nánast öll orðin malbikuð þegar lokið verður endurnýjun á 5,7 kílómetra kafla í Arnarfirði, um Meðalnes nyrst við Dynjandisvog, sem Íslenskir aðalverktakar vinna að.
Vegafarendur sem koma sunnan að um Dynjandisheiði geta einnig vænst þess að sjá Dynjanda í klakaböndum í vetur. Vegagerðin hefur ákveðið að reyna að halda heiðinni opinni á virkum dögum í vetur með fimm snjómokstursdögum í hverri viku, að sögn Guðmundar Björgvinssonar, yfirverkstjóra á Ísafirði. Sá kafli verður einnig orðinn betri innan árs þegar Íslenskir aðalverktakar ljúka gerð nýs 4,3 kílómetra kafla ofan Flókalundar, um Þverdalsá og Pennusneiðing.