Óljóst er hvort að fleiri íbúar hafi smitast af kórnuveirunni á Ísafold hjúkrunarheimili Hrafnistu í Garðabæ. Búið er að skima stóran hóp íbúa og starfsmanna. Forstjóri heimilanna segir að búið sé að grípa til víðtækra ráðstafana til að reyna að koma í veg fyrir frekari smit.
Á föstudaginn greindist íbúi á Ísafold, einu af hjúkrunarheimilum Hrafnistu í Garðabæ, með kórónuveiruna. Íbúinn liggur nú á Landspítalanum. Heimilinu var lokað eftir að smitið kom upp og allir íbúar settir í sóttkví en þar búa sextíu manns.
María Fjóla Harðardóttir forstjóri Hrafnistuheimilanna segir enn engan annan hafa greinst með veiruna.
„Við skimuðum ákveðinn hóp í gær og allar sýnatökur voru neikvæðar. Við erum í raun og veru búin að setja fimmtán manns, starfsmenn, í sóttkví. Öll Ísafold er lokuð eins og er og við erum með hana í sóttkví og skiptum húsinu upp í sóttkvíarhólf þannig við séum að takmarka ferðir á milli.“
María segir að búið sé að grípa til víðtækra ráðstafana til að reyna að koma í veg fyrir að fleiri smitist.
„Eins og staðan er í dag þá erum við í raun og veru ekki hólpin eins og margir hafa kannski orðað það. Þar er möguleiki að það gæti komið upp sýkingar sem að hafa borist á milli frá viðkomandi.“