Handbolti

Aron valinn maður leiksins | Haukur fór meiddur af velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron var frábær í kvöld.
Aron var frábær í kvöld. Vísir/Barcelona

Tveir Íslendingar voru í eldlínunni í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld. Gengi þeirra var vægast sagt ólíkt. Aron Pálmarsson var valinn maður leiksins í sigri Barcelona á Nantes. Haukur Þrastarson fór hins vegar meiddur af velli í sigri Kielce.

Aron Pálmarsson var á sínum stað í liði Barcelona sem sótti Nantes heim í Frakklandi. Spánarmeistararnir voru með góð tök á leiknum frá upphafi til enda. Leiddu þeir með þremur mörkum í hálfleik, 18-15, og fór það svo að þeir unnu sjö marka sigur á endanum.

Lokatölur í Frakklandi 35-27.

Aron gerði sex mörk í liði Barcelona og var valinn maður leiksins að leik loknum. Barca er með fullt hús stiga í B-riðli en liðið hefur unnið alla þrjá leiki sína. Alls eru átta lið í hverjum riðli.

Haukur Þrastarson lék með liði sínu Kielce í kvöld er liðið heimsótti Elverum í Noregi. Kielce vann öruggan níu marka sigur en Haukur virtist snúa illa upp á hné sitt er hann lenti eftir að hafa skorað eina mark sitt í leiknum á 19. mínútu leiksins.Óvíst er hversu alvarleg meiðsli Hauks eru.

Kielce vann leikinn örugglega 31-22. Var þetta annar sigur liðsins í fyrstu þremur leikjum A-riðils og er liðið í 2. sæti sem stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×