Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur sinnt vel yfir 100 sjúkraflutningum í dag sem þykir afar mikið miðað við það sem gengur og gerist. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er ekki algengt að slökkviliðið sinni mikið fleirum en 80 flutningum á dag. Annað slagið komi þó svona dagar en ekkert eitt frekar en annað skýrir þetta mikla annríki í dag.
Skráðir voru 105 sjúkraflutningar hjá slökkviliðinu á dagvakt í dag, þar af 17 svokallaðir covid-flutningar. Frá klukkan 19:30 hefur slökkviliðið sinnt minnst 15 til viðbótar. Auk þess sem mikið var að gera í sjúkraflutningum var nokkuð um minni háttar útköll á dælubíla.
Að sögn vakthafandi varðstjóra hjá slökkviliðinu var fjöldi covid-flutninga í dag nokkuð svipaður því sem verið hefur undanfarna daga en slökkviliðið sinnir til að mynda í einhverjum tilfellum fólki sem er í sóttkví eða einangrun og ekki hefur önnur úrræði til að komast í sýnatöku.