Krabbameinsfélagið hefur lokið við endurskoðun tæplega 3300 af 6000 sýnum sem rannsaka á sérstaklega vegna alvarlegs atviks sem uppgötvaðist í sumar. Sýni úr 108 konum hafa sýnt vægar frumubreytingar sem kalla á frekari skoðun viðkomandi kvenna.
Þetta kemur fram á vef Krabbameinsfélagsins þar sem segir að endurskoðun sýna gangi vel. Allt kapp sé lagt á að ljúka henni eins fljótt og mögulegt er.
Krabbameinsfélagið mun birta uppfærðar tölur um endurtalningu sýnanna vikulega, hvern fimmtudag, þar til endurskoðun er lokið.
„Upplýsingarnar verða birtar með þessum hætti til að létta álagi af frumurannsóknarstofu Leitarstöðvarinnar.“
Í lok ágúst greindi fréttastofa frá því að kona um fimmtugt hafi fengið rangar niðurstöður úr leghálsskimun hjá félaginu. Hún greindist síðar með ólæknandi krabbamein sem líklega hefði verið hægt að koma í veg fyrir.
Konan undirbýr nú skaðabótamál á hendur Krabbameinsfélaginu ásamt lögmanni sínum, en fleiri konur hafa leitað til lögmannsins vegna málsins.
Krabbameinsfélagið kveðst harma málið og hefur embætti landlæknis hafið vinnu við að fá aðila erlendis frá til þess að taka út skoðun félagsins á leghálssýnum. Markmið úttektarinnar er að ganga úr skugga um að endurskoðun og skoðun sýna sé fullnægjandi að gæðum.