Verkföll Eflingarfólks munu halda áfram þrátt fyrir boð samningarnefndar félagsins um tveggja daga verkfallshlé. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu. Efling bauðst fyrr í dag til að fresta verkfallsaðgerðum í tvo sólarhringa, á miðvikudag og fimmtudag, gegn því að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, veitti skriflega staðfestingu á „Kastljóstilboðinu“ svokallaða.
Samkvæmt tilkynningunni var frestur á svari veittur til klukkan fjögur í dag en barst ekki svar við því. „Bréfið var sent klukkan ellefu og var þar boðið að fresta verkfalli frá miðnætti í kvöld og í tvo sólarhringa. Ríkissáttasemjari fékk afrit af bréfinu og staðfesti móttöku þess. Frestur til svars var til klukkan fjögur í dag. Svar barst ekki fyrir klukkan fjögur og heldur því verkfall áfram.“
Sjá einnig: Bjóða verkfallshlé í tvo daga gegn skriflegri staðfestingu á „Kastljósstilboðinu“
Borgarstjóri birti færslu á Facebook-síðu sinni laust eftir klukkan fimm í dag þar sem hann býður Sólveigu Önnu, formanni Eflingar, til fundar við sig til að ræða viðræðurnar og hvar beri milli aðila.
„Í stað þess að standa í frekari skeytasendingum í fjölmiðlum vil ég bjóða Sólveigu Önnu formann Eflingar til fundar til að ræða hina erfiðu stöðu viðræðna og hvar ber á milli aðila,“ skrifar Dagur í svari til Eflingar.
„Ég stend að sjálfsögðu við allt sem ég sagði í Kastljósi á sínum tíma en það er ekki gagnlegt þegar reynt er að snúa út úr þeim yfirlýsingum eða standa í skeytasendingum í fjölmiðlum til að leysa kjaradeilur,“ bætir hann við.

