Sjávarútvegsráðherra Noregs, Geir Inge Sivertsen, baðst í gær lausnar frá ráðherraembætti, eftir aðeins einn mánuð í starfi. Ástæðan er sú að hann sóttist eftir og þáði starfslokagreiðslu í einn og hálfan mánuð sem fráfarandi bæjarstjóri eftir að hann var kominn á full laun hjá norska ríkinu.
Geir Inge stýrði áður sveitarfélaginu Lenvik í Troms í Norður-Noregi. Um áramót var það lagt niður og sameinað nýju sveitarfélagi. Þann 4. nóvember tók hann við starfi sem pólitískur ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneyti Noregs. Hann varð svo óvænt sjávarútvegsráðherra fyrir Hægri flokkinn þann 24. janúar við uppstokkun í ríkisstjórninni við brotthvarf Framfaraflokksins.

Sem fráfarandi bæjarstjóri fór hann fram á og fékk greidd eftirlaun sem nam einum og hálfum mánaðarlaunum, andvirði 1,6 milljóna íslenskra króna. Á sama tíma var hann kominn á launaskrá norska ríkisins með um 1,1 milljón íslenskra króna í mánaðarlaun sem ráðuneytisstjóri. Þar með var hann kominn á tvöföld laun, en norska Dagbladet fór fremst fjölmiðla í að fletta ofan af hneykslinu.
Samkvæmt reglum norskra sveitarfélaga eiga menn ekki rétt á slíkum starfslokagreiðslum fari þeir í annað starf hjá hinu opinbera. Í slíkum tilvikum eiga þeir aðeins rétt á að fá greiddan mismuninn, sé hann einhver, á eftirlaunum og launum fyrir nýja starfið.
Mótbárur sjávarútvegsráðherrans, um að hann hefði í raun gegnt tveimur störfum samtímis, bæjarstjórastarfinu og ráðuneytisstjórastarfinu, dugðu honum ekki, né ákvörðun hans um endurgreiðslu eftirlaunanna. Hann neyddist í gær til að ganga á fund Ernu Solberg forsætisráðherra til að biðjast lausnar.
Einn stjórnarandstöðuflokkanna, SV, Sosialistisk Venstreparti, hafði sama dag lagt fram vantrauststillögu gegn ráðherranum.