Bjarki Már Elísson átti frábæran leik er Lemgo lagði Stuttgart í þýsku úrvalsdeildinni í dag, 27-23. Hann var þó ekki eini Íslendingurinn í eldlínunni. Oddur Grétarsson var öflugur í liði Balingen sem tapaði gegn Füchse Berlín, 33-27.
Bjarki Már gerði sér lítið fyrir og skoraði 11 mörk fyrir Lemgo sem tókst um leið að koma sér aðeins frá liðunum sem eru í fallbaráttu. Bjarki er í 2. sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar en hann hefur skorað 159 mörk til þessa, einu minna en Hans Lindberg sem leikur með Füchse Berlín.
Elvar Ásgeirsson leikur með Stuttgart en liðið er sem fyrr í 16. sæti deildarinnar, aðeins einu stigi frá fallsæti.
Oddur var einnig markahæstur í liði Balingen með átta mörk í dag en það dugði ekki til gegn sterku liði Füchse Berlín.
Að lokum tapaði Erlangen, lið Aðalsteins Ejólfssonar, gegn Leipzig á útivelli, lokatölur þar 26-21.

