Hægri bakvörðurinn Arnar Sveinn Geirsson mun leika með Fylki út leiktíðina. Kemur hann á láni frá Breiðabliki. Eftir að Óskar Hrafn Þorvaldsson tók við Kópavogsliðinu í vetur þá var fljótlega gefið út að Arnar Sveinn væri ekki í áætlunum hans.
Svo virtist sem Arnar Sveinn yrði þó áfram í herbúðum Blika í sumar en nú hafa félagaskipti hans verið staðfest á vef KSÍ.
Hinn 28 ára gamli Arnar er uppalinn hjá Val en hefur einnig leikið með Fram, Víking Ólafsvík og KH hér á landi. Alls hefur hann leikið 103 leiki í efstu deild.
Mun hann styrkja lið Fylkis sem hefur misst tvo máttarstólpa í þeim Ragnari Braga Sveinssyni og Helga Val Daníelssyni eftir aðeins þrjár umferðir í Pepsi Max deildinni.
Næsti leikur Fylkis er gegn Fjölni þann 4. júlí.