Mótmæli fara nú fram á Austurvelli vegna slæms aðbúnaðar verkafólks hér á landi. Þá segir í lýsingu viðburðarins á Facebook að það eigi sérstaklega við verkafólk af erlendum uppruna, sem sæti miklu ójafnrétti hér á landi. Lögreglan áætlar að um þrjú hundruð manns sé á mótmælunum.
Viðburðurinn var stofnaður í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg á fimmtudag, þar sem þrír einstaklingar létu lífið. Flestir íbúar hússins voru einstaklingar af erlendum uppruna sem komu hingað í atvinnuleit og sagði pólski ræðismaðurinn á Íslandi í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að líklegt sé að þeir sem létust séu allir pólskir ríkisborgarar, á þrítugs- og fertugsaldri.
„Við vonumst til að geta varpað ljósi á aðstæður á húsnæðismarkaði á Íslandi, sem eru ekki fólki bjóðandi, lýst yfir vanþóknun okkar á því hve ófagmannleg stéttafélögin hafa verið og hve erlent verkafólk hefur verið jaðarsett í íslensku samfélagi,“ segir í lýsingu viðburðarins.