Erlent

Skrifa Black Lives Matter á götuna við Trump-turn

Samúel Karl Ólason skrifar
Trump fyrir utan Hvíta húsið í gær.
Trump fyrir utan Hvíta húsið í gær. AP/Alex Brandon

Bill de Blasio, borgarstjóri New York, ætlar að láta skrifa orðin „Black Lives Matter“ í stórum gulum stöfum á götuna fyrir utan Trump-turn í næstu viku. Donald Trump, forseti, hefur ekki tekið vel í það og notaði tilefnið til að ljúga upp á mótmælendur í New York um að þau hafi kallað eftir því að lögregluþjónar yrðu myrtir.

Talskona de Blasio sagði í gær að Trump smánaði öll þau gildi sem íbúar New York taki sér nærri. Það þyrfti að minna hann á það í hvert sinn sem hann sneri aftur til New York að líf svartra skipti svo sannarlega máli, samkvæmt frétt New York Times.

Trump tjáði sig um ákvörðun de Blasio á Twitter og þar laug hann upp á mótmælendur í borginni og reyndi að skapa illdeilur á milli þeirra og lögreglunnar. Hann hélt því ranglega fram að mótmælendur í New York hafi kallað lögregluþjóna „Pigs in a blanket1“, sem eru pulsur vafðar í beikon eða deig, og kallað eftir því að lögregluþjónar yrðu „grillaðir“.

Forsetinn sagði lögregluþjóna brjálaða yfir þessu.

Hið rétta er að tiltölulega fámennur hópa mótmælenda gegn ofbeldi lögregluþjóna í Minnsesota sögðu þetta árið 2015. Bæði Sean Hannity, sem er vinur Trump, og Tucker Carlson hjá Fox News hafa sýnt myndbrot frá þessum mótmælum á síðustu vikum.

Trump var gestur í umræðuþætti á Fox í gær, sem Hannity stýrði, þar sem hann fór ekki fögrum orðum um mótmælendur sem hafa rifið niður umdeildar styttur í Bandaríkjunum. Hann sagði þá vera hryðjuverkamenn og að á einhverjum tímapunkti þyrfti að veita þeim „makleg málagjöld“.

Þá sakaði hann leiðtoga BLM-hreyfingarinnar New York um landráð í gær. Sá hafði talað um að „brenna kerfið“ og byggja það upp á nýjan leik ef umfangsmiklar breytingar verði ekki gerðar á löggæslu í Bandaríkjunum.

Þetta sagði forsetinn vera landráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×