Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, er sagður hafa greinst með Covid-19, sjúkdóminn sem nýja kórónuveiran veldur. Sonur forsetans segir á Twitter að þessar fregnir séu ekki sannar. Hann staðfestir þær þó í viðtali við Fox og á Twittersíðu forsetans segir að hann sé ekki smitaður.
Áður hafði náinn ráðgjafi forsetans greinst með veiruna.
Bolsonaro fundaði nýverið með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og var Fabio Wajngarten, aðstoðarmaður Bolsonaro, þar einnig. Sá hefur greinst með kórónuveiruna.
Eduardo Bolsonaro, sonur forsetans, sagði frá því í gær að faðir sinn hefði farið í rannsókn, þó hann væri ekki að sýna einkenni. Fjölmiðlar í Brasilíu segja þá niðurstöðu liggja fyrir en Eduardo segir það ekki rétt.
Í mótsögn við sjálfan sig, staðfesti hann þó niðurstöðuna í samtali við blaðamenn Fox. Edurardo sagði þar að verið væri að gera aðra rannsókn og staðfesta niðurstöður þeirrar fyrri.
Á Twittersíðu forsetans segir svo að hann sé ekki með veiruna.
- HFA/SABIN atestam negativo para o COVID-19 o Sr. Pres. da República Jair Bolsonaro. pic.twitter.com/iL3YPGPGXA
— Jair M. Bolsonaro (@jairbolsonaro) March 13, 2020
Þrátt fyrir að aðstoðarmaður Bolsonaro hafi greinst með veiruna og að báðir hafi verið með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í Flórída um síðustu helgi, ætlar hvorki Trump né Pence, varaforseti, að gangast undir rannsókn.
Francis Suarez, borgarstjóri Miami, var á fundi þeirra Trump og Bolsonaro, og hefur hann opinberað að hann greindist með veiruna.
Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu segir að Trump og Pence hafi átt í litlum samskiptum við viðkomandi embættismann og því þurfi þeir ekki að senda sýni til rannsóknar.
Sjá einnig: Trump og Pence ætla ekki að gangast undir rannsókn
Fabio Wajngarten (wearing hat) has coronavirus. Bolsonaro has coronavirus. Both of these photos were taken last weekend at Mar-a-Lago. Trump refuses to get tested. pic.twitter.com/sY6HwWzPkp
— Aaron Rupar (@atrupar) March 13, 2020
Trump hefur nú lýst því yfir að hann muni halda blaðamannafund klukkan sjö að íslenskum tíma. Umræðuefni fundarins er kórónuveiran en enn sem komið er er lítið annað vitað um tilefni fundarins.
I will be having a news conference today at 3:00 P.M., The White House. Topic: CoronaVirus!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) March 13, 2020
Uppfært: Yfirlýsingu Bolsonaro á Twitter um að hann sé ekki smitaður hefur verið bætt við. Einnig hefur smiti borgarstjóra Miami verið bætt við.