Erlent

Kína leggur til lög sem myndu tak­marka and­stöðu Hong Kong

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Æðsta ráðgjafarþing Kínverja á sviði stjórnmála kom saman í vikunni.
Æðsta ráðgjafarþing Kínverja á sviði stjórnmála kom saman í vikunni. AP Photo/Andy Wong

Kínversk stjórnvöld hafa lagt fram frumvarp um ný öryggislög í Hong Kong sem myndu banna uppreisnaráróður, sjálfstæðisyfirlýsingu héraðsins og landráð. Líklegt er talið að tilraunin verði gagnrýnd alþjóðlega og í Hong Kong sjálfu, þar sem geisuðu margra mánaða mótmæli í fyrra.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að kínverska Alþýðuþingið, sem fer með lagasetningarvaldið í Kína, muni taka frumvarpið fyrir þegar þingið kemur saman á föstudag. Samkvæmt ör-stjórnarskrá Hong Kong þarf sjálfstjórnarhéraðið að innleiða slík öryggislög. 

Alþýðuþing Kína verður sett á morgun, föstudag, þar sem um þrjú þúsund þingmenn munu koma saman og ræða frumvarpið. Þingið kemur saman aðeins einu sinni á ári í tvær vikur í senn. 

Hin svokölluðu Grunnlög voru innleidd árið 1997 þegar Bretland skilaði Hong Kong af yfirráðasvæði sínu aftur til Kína en þau tryggja ákveðin grunnréttindi sem eru ekki til staðar á meginlandi Kína.

Yfirvöld í Peking hafa alltaf haft völdin til að innleiða öryggislögin í Grunnlögin en hafa ekki beitt þeim völdum hingað til. Hins vegar hafa kosningar til héraðsþings Hong Kong verið boðaðar í september næstkomandi og talið er að ef flokkum sem styðja aukið lýðræði gengur jafn vel og þeim gerði í svæðakosningum í fyrra gæti héraðsþingið tekið upp á því að koma í veg fyrir innleiðingu laga sem eru frá yfirvöldum Kína komin.

Heimildarmaður South China Morning Post, fréttamiðils sem staðsettur er í Hong Kong, frá meginlandinu sagði í samtali við blaðið að yfirvöld í Peking hafi ákveðið að Hong Kong væri ekki fært um að innleiða eigin öryggislög og því þyrfti þjóðþingið að taka á sig þá ábyrgð.

Á mánudag var fjöldi þingmanna í Hong Kong sem styðja aukið lýðræði dregnir út úr þingsalnum vegna átaka sem brutust út vegna frumvarps til laga um þjóðsöng Kína. Væru lögin samþykkt væri það glæpsamlegt athæfi að sýna kínverska þjóðsöngnum virðingarleysi.


Tengdar fréttir

Lam hótar mótmælendum í Hong Kong

Carrie Lam, leiðtogi Hong Kong, segir að „eitt ríki, tvö kerfi“ gæti verið við lýði löngu eftir að það rennur formlega út árið 2047. Eingöngu þó ef ungt fólk Hong Kong skemmir það ekki með „tímabundnum misskilningi“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×