Innlent

Fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Húsið er bárujárnsklætt og erfitt var að komast að eldinum.
Húsið er bárujárnsklætt og erfitt var að komast að eldinum. Vísir/Tryggvi

Lögregla og slökkvilið á Akureyri vakta enn vettvang brunans við Hafnarstræti 37 á Akureyri. Lögregla tók við vettvangi þegar eldurinn var slökktur í gær og mun rannsaka hann í dag. Ekki fengust upplýsingar um eldsupptök eða líðan manns, sem bjargað var úr húsinu og fluttur í alvarlegu ástandi á Sjúkrahúsið á Akureyri. Þaðan var hann fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur.

Tilkynnt var um eldinn skömmu eftir klukkan sjö í gær. Húsið er tveggja hæða, úr timbri og bárujárnsklætt svo erfitt var að komast að eldinum. Rífa þurfti þakið af húsinu til að auðvelda slökkvistarf.

Lögregla og slökkvilið voru enn að störfum á vettvangi um miðnætti í gær, samkvæmt tilkynningu frá lögreglu. Þá var búið að slökkva allan eld en hiti og reykur enn í húsinu. Unnið var áfram á vettvangi í nótt.

Mikill reykur barst frá húsinu þegar slökkvilið kom á vettvang. Reykkafarar voru sendir inn í húsið en urðu frá að hverfa vegna hita og reyks. Maður fannst rænulaus á miðhæð hússins og hann fluttur þungt haldinn á sjúkrahús, líkt og áður segir. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði í gær voru ekki fleiri í húsinu þegar eldurinn kom upp.

Tvö hús til viðbótar voru rýmd og íbúar í nágrenninu hvattir til að loka gluggum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×