Erlent

Johnson í stöðugu ástandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AP/Matt Dunham

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er í stöðugu ástandi á gjörgæslu. Hann var fluttur þangað í gær eftir að veikindi hans vegna Covid-19, sjúkdómsins sem nýja kórónuveiran veldur, versnuðu töluvert. Johnson er ekki í öndunarvél og er vakandi. Þá er hann ekki með lungnabólgu en hann fór fyrst á sjúkrahús á sunnudaginn.

Tilkynnt var í dag að 786 hafi dáið vegna veirunnar á milli daga í Bretlandi og er það mikil aukning frá því á mánudaginn, þegar 439 höfðu dáið. Alls hafa minnst 6.159 dáið, samkvæmt frétt BBC.

Dominic Raab, utanríkisráðherra, leiðir ríkisstjórn Bretlands á meðan Johnson er á sjúkrahúsi og segist hann fullur vonar um að Johnson jafni sig, enda sé hann „baráttumaður“.

Útgöngubann er í gildi á Bretlandi og á það að gilda þar til í næstu viku. Samkvæmt frétt Reuters er þó umræða í ríkisstjórninni um að framlengja bannið enn frekar og tryggja félagsforðun lengur. Vísbendingar eru um að fólk hafi nýtt sér gott veður undanfarinna daga og brotið gegn reglunum.

Johnson hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa gripið seint til aðgerða til að sporna gegn útbreiðslu kórónuveirunnar. Þann 3. mars, degi eftir að vísindamenn sem ráðleggja ríkisstjórninni sögðu allt að hálfa milljón Breta gætu dáið, var Johnson glaðlyndur og sagði Bretland einstaklega vel undirbúið fyrir nokkurs konar faraldur. Hann grínaðist einnig með að hann væri enn að taka í hendur fólks.

Rannsókn Reuters hefur þó leitt í ljós að þrátt fyrir að vísindamenn hefðu sífellt meiri áhyggjur af stöðunni, drógu þeir sem ráðlögðu ríkisstjórn Johnson fæturna í að lýsa yfir áhyggjum sínum.

Það var ekki fyrr en í mars að ráðgjafaráðið lagði það til að gripið yrði til félagsforðunar. Viðmælendur Reuters segir sérfræðingana hafa óttast að Bretar myndu ekki sætta sig við útgöngubann og aðrar takmarkanir á frelsi þeirra.

Þar að auki var ekki hafinn undirbúningur fyrir umfangsmikla skimun eftir sjúkdómnum í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×