Rússland varð í dag fyrsta liðið til að gulltryggja sér sæti í undanúrslitum heimsmeistaramóts kvenna í handbolta en Svíþjóð og Spánn berjast um hitt sætið.
Rússnesku stelpurnar eru búnar að vinna sjö fyrstu leikina sína á HM en þær unnu sjö marka sigur á Svartfellingum í dag, 35-28. Rússland er með átta stig eða þremur meira en Svíar sem sitja í þriðja sætinu.
Spænska liðið er stigi á eftir Rússum eftir 33-31 sigur á Japan. Spánverjar mæta hins vegar hinu sterka liði Rússa í lokaumferðinni.
Svíar eiga enn möguleika á sæti í undanúrslitum eftir tólf marka sigur á Rúmeníu, 34-22. Svíar þurfa þó ekki aðeins að vinna upp tveggja stiga forskot Spánverjar heldur einnig sex mörk í markatölu. Liðin gerðu jafntefli í innbyrðis leiknum og því er líklegt að markatala ráði úrslitum.
Sænsku stelpurnar vissu að þær þurftu stóran sigur til að vinna upp átján marka forskot Spánverja í markatölu.
Þær voru komnar fimm mörkum yfir í hálfleik, 14-9, og náðu síðan sjö marka forskoti í seinni hálfleiknum. Rúmenar minnkuðu aftur muninn í fimm mörk en þá kom gott leikhlé hjá Svíum og þær kláruðu leikinn mjög vel. Munurinn í lokin varð heil tólf mörk eftir 10-3 endasprett hjá sænsku stelpunum.
Olivia Mellegard var markahæst hjá Svíum með sjö mörk en Mikaela Massing skoraði fimm mörk.
Lokaumferðin í báðum riðlum fer fram á morgun. Svíar mæta þar Svartfjallalandi.
Úrslitin í milliriðli tvö á HM kvenna í handbolta í dag:
Rússland - Svartfjallaland 35-28
Japan - Spánn 31-33
Svíþjóð - Rúmenía 34-22
Stig liðanna í milliriðli tvö
Rússland 8
Spánn 7
Svíþjóð 5
Svartfjallaland 4
Japan 0
Rúmenía 0
Stig liðanna í milliriðli eitt
Noregur 6
Þýskaland 5
Holland 4
Serbía 4
Danmörk 3
Suður Kórea 2
Tvö efstu liðin úr hvorum riðli komast í undanúrslitin.
