Skoðun

Ó­líðandi kynja­mis­rétti

Sandra Bryndísardóttir Franks skrifar
Alþekkt er að menntun kvenna hefur aukist verulega á Íslandi síðustu ár og atvinnuþátttaka þeirra hefur jafnframt vaxið gríðarlega. Þátttaka karla við heimilisstörf og umönnun barna hefur því miður ekki aukist að sama skapi. Stytting á vinnutíma er lykilþáttur í að leiðrétta þessa stöðu kvenna á vinnumarkaði og til að auka líkur á að lífið verði fjölskylduvænna.

Sjúkraliðafélag Íslands hefur árum saman beitt sér fyrir styttingu vinnuvikunnar og litið til þess að jafna þurfi stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar um jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og í niðurstöðum þeirra má sjá að konur bera þungan af heimilishaldi, og að samanlagður vinnutími kvenna í vinnu og á heimili er 30% lengri en hjá körlum. Þá hafa kannanir verið gerðar um ástæðu þess að konur og karlar vinna hlutastörf. Algengast er að konur vinna hlutastörf vegna þeirrar ábyrgðar sem þær taka á fjölskyldunni, en enginn karlmaður nefndi þá ástæðu. Almennt séð velja karlar að vinna hlutastörf vegna menntunar, eigin heilsu eða annarra þátta. Í þessu sambandi er rétt að benda á að um 80% sjúkraliða vinna hlutastarf að jafnaði í 75% stöðu, sem ræðst af því að vinnan sjálf er krefjandi og af fjölskylduábyrgðinni.

Samkvæmt niðurstöðum tilraunaverkefnis ríkisins og BSRB sem sett var af stað vorið 2017 kemur fram að styttri vinnutími hefur jákvæð áhrif á vinnu og daglegt líf. Konur upp­lifðu meira jafn­vægi milli vinnu og einka­lífs og meiri stuðn­ing frá vinnufélögum en karlar. Eins upp­lifðu þær minni hlutverkarugl­ing og meiri starfs­á­nægju en karlar. Bæði kynin upplifðu hins vegar minna starfsálag. Þá voru einnig gerðar hagrænar mælingar þar sem litið var til veikindafjarvista, yfirvinnu, skilvirkni og árangurs. Í ljós kom að stytting vinnuvikunnar hefur jákvæð áhrif á árangur og skilvirkni starfseminnar.

Það er þekkt að fyrirkomulag vinnutíma er mikilvæg forsenda þess til að jafna aðkomu kynjanna að fjölskyldulífi og þátttöku á atvinnumarkaði. Stytting vinnuvikunnar leiðir til þess að konur fari síður í hlutastörf og að karlar taki meiri ábyrgð á fjölskyldulífi. Þannig getum við stuðlað að jafnari skiptingu ábyrgðar á launuðum sem ólaunuðum störfum og leiðrétt þetta ólíðandi kynjamisrétti á vinnumarkaði.

Höfundur er formaður Sjúkraliðafélags Íslands.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×