Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítalanum, segir að um sé að ræða fimm til sex einstaklinga. „Til þess að ná árangri þá gerum við samning við þessa einstaklinga. Við skoðum sjúkrasögu þeirra og ef það er læknisfræðileg ástæða til að ávísa ávanabindandi lyfjum þá gerum við samning við þá. Þá ávísum við ýmist sterku verkjalyfi eða örvandi lyfi í einni töflu gegn því að þeir taki HIV-lyf eða lyf við lifrarbólgu C,“ segir Már. Oftast er það heimilislæknir sem ávísar lyfinu.
Verkefnið hefur staðið yfir í rúmt ár og gefið góða raun. „Okkur hefur tekist að halda þessum einstaklingum, sem hafa engin önnur úrræði, veirufríum,“ segir Már. Vill hann að verkefnið verði eflt. „Oftast nær þarf ekki að grípa til þessa. Það er fullt af fíklum sem þrátt fyrir sína neyslu geta sinnt sinni meðferð, en það er smá kjarni sem er svo langt leiddur að þeir geta ekki komið og er ekki treystandi fyrir lyfjunum.“

Hrafnhildur Ólafsdóttir, deildarstjóri hjá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, tekur undir með Má að það þurfi að efla starfið. Tekur hún fram að það sé aldrei starfsmaður gistiskýlisins sem útdeili lyfjunum, heldur starfsmaður vettvangs- og ráðgjafateymis borgarinnar. „Það er alltaf hjúkrunarfræðingur sem sér um lyfjagjöf,“ segir Hrafnhildur.
Baldur segir einstaklingana hafa hótað að smita aðra ef þeir fá ekki stærri skammta. „Það eru dæmi um að þeir hafi hótað að dreifa blóðugum nálum á leikskólalóðum.“
Már segir að ekki sé um að ræða stóra skammta og það sé ekki hægt að semja um þá. „Neysla þessa fólks er miklu meiri en sem nemur þessu, það vitum við. Þetta er nægilega góður díll fyrir þessa einstaklinga til að þeir láti sig hafa þetta og taki veirulyfin, það er það sem skiptir máli.“
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir sitt embætti ekki eiga aðkomu að þessu, en hann viti af ýmsum brögðum sem læknar beiti til að meðhöndla sjúklinga. „Þeir sem eru að meðhöndla einstaklinga sem eru með mjög alvarlega og smitandi sjúkdóma eru með alls konar tilfæringar til að ná fram samvinnu og veita fólki meðferð við smitsjúkdómum,“ segir hann. „Það eru mjög erfiðir einstaklingar þarna úti sem er erfitt að eiga við, þá þurfa menn að beita alls konar ráðum.“ Hann fagnar því að læknar geti sýnt sveigjanleika. „Þessi skaðaminnkandi úrræði eru einmitt til þess að auðvelda samstarf við þennan hóp.“