Hildur greindi frá þessu á Facebook síðu sinni.
„Frídagar grunnskólabarna í Reykjavík eru samanlagt 73 árlega, að undanskildum lögbundnum frídögum. Systkini á tveimur skólastigum eiga samanlagt 79 frídaga árlega. Foreldrar á almennum vinnumarkaði eiga flestir 24 frídaga árlega. Það þarf ekki langskólagenginn stærðfræðing til að sjá þær áskoranir sem mæta fjölskyldufólki við skipulag hversdagsins,“ segir Hildur.
Atvinnurekendur lendi ekki síður í vanda vegna þeirra ráðstafana sem gera þurfi vegna fjarveru foreldra frá vinnu.
Hildur hyggst útfæra tillöguna með þeim hætti að skipulags- og starfsdagar yrðu betur samræmdir innan borgarhverfa á milli skólastiga. Skólasetning væri á mánudegi og skólaslit á föstudegi. Þá leggur hún til að frísund standi til boða samkvæmt gjaldskrá þá daga sem fram fara foreldraviðtöl.