Bréfið er dagsett 9. október, undirritað af Trump og stílað á Erdogan. Tyrkir hófu innrás í Sýrland sama dag og hafa átök milli Tyrkja og Kúrda stigmagnast á svæðinu síðan.
Í bréfinu leggur Trump það til við Erdogan að þeir „geri með sér góðan samning“. „Þú vilt ekki bera ábyrgð á því að hafa slátrað þúsundum manna og ég vil ekki vera ábyrgur fyrir því að gjöreyða tyrkneskum efnahag – og ég mun gera það,“ heldur Trump áfram.
Þá bendir hann á að hann hafi þegar gefið Tyrkjum forsmekkinn af því hversu harður hann sé í horn að taka og vísar til þess þegar hann þvingaði þá til að láta bandaríska prestinn Andrew Brunson lausan í fyrra.
Að lokum segir Trump að sagan verði Erdogan hliðholl, að því gefnu að hann leysi málið „á réttan og mannúðlegan hátt.“ Að öðrum kosti verði hann álitinn sjálfur djöfullinn, „ef góðir hlutir gerast ekki.“
„Ekki vera harðjaxl. Ekki vera flón! Ég hringi í þig síðar.“ Afrit af bréfinu má sjá í tístinu hér að neðan.
EXCLUSIVE: I have obtained a copy of @realDonaldTrump's letter to #Erdogan. @POTUS warns him to not “be a tough guy! Don't be a fool!” Says he could destroy Turkey's economy if #Syria is not resolved in a humane way. Details tonight at 8pm #TrishRegan #FoxBusiness pic.twitter.com/9BoSGlbRyt
— Trish Regan (@trish_regan) October 16, 2019
Margir hafa furðað sig á bréfinu eftir að það var birt í gær. Þannig þykir orðalag bréfsins nokkuð á skjön við það sem tíðkast í opinberum samskiptum þjóðhöfðingja og einhverjir settu spurningamerki við það hvort bréfið væri yfir höfuð raunverulegt. Hvíta húsið hefur þó staðfest lögmæti bréfsins, líkt og fram kemur í tísti Katie Rogers, blaðamaður New York Times, hér að neðan.
Felt the need to ask WH if this is actually real and it is. pic.twitter.com/bHyIFw6cvO
— Katie Rogers (@katierogers) October 16, 2019