Enkeladus hefur lengi vakið athygli reikistjörnufræðinga en talið er að undir ísilögðu yfirborði tunglsins sé að finna víðáttumikið neðanjarðarhaf fljótandi vatns. Þá er talið líklegt að jarðhitastrýtur, líkt og finnast á hafsbotni á jörðinni, sé að finna á Enkeladusi sem hefur vakið vonir um að líf gæti mögulega þrifist þar.
Vatnsgufa og ískorn gýs upp um sprungur í ísskorpunni sem Cassini-geimfar bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA sá í þrettán ára leiðangri sínum á braut um Satúrnus. Rannsóknin nú byggist á athugunum Cassini á strókum af þessu tagi.
Lífrænu efnasambönd úr nitri og súrefni fundust í ískornum sem komu upp í gegnum slíka jarðvirkni á Enkeladusi. Þau eru talin hafa komið úr kjarna tunglsins, leyst upp í vatninu í neðanjarðarhafinu, gufað upp úr hafinu og svo þést og frosið inni í sprungum í ísskorpunni. Kornin hafi svo barist út í geim þegar vatnsgufa gaus upp um sprunguna.

Áður höfðu vísindamenn leitt líkum að því að flóknar og óuppleystar lífrænar sameindir gætu flotið á yfirborði neðanjarðarhafs Enkeladusar.
„Þessi rannsókn sýnir að höf Enkeladusar hafa ofgnótt af hvarfgjörnum frumeiningum og það er annað grænt ljós í rannsókninni á lífvænleika Enkeladusar,“ segir Frank Postberg, annar vísindamannanna sem fór fyrir rannsókninni.
Cassini-leiðangrinum lauk í september árið 2017 þegar geimfarinu var steypt ofan í lofthjúp Satúrnusar. Vísindamenn eru þó taldir verða áratugi að vinna úr öllum þeim gögnum sem farið sendi til baka á þeim þrettán árum sem það var á braut um gasrisann.