Tveir hinna ákærðu, þeir Einar Jökull Einarsson og Alvar Óskarsson, kröfðust þess að fá aðgang að umræddum gögnum auk þess sem þess var krafist að héraðssaksóknari myndi taka til sín rannsókn á meintu peningaþvætti þeirra og eftir atvikum gefa út ákæru eða fella málið niður.
Í úrskurði Landsréttar segir að í lögum meðferð sakamála komi fram sú meginregla að verjandi skuli eins fljótt og auðið er fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans.

Varðandi kröfuna um aðgang að dagbókarfærslum lögreglu segir að það verði að líta til þess að það sé almennt á forræði ákæruvaldsins hvaða gögn það leggur fram til þess að fullnægja sönnunarbyrði sinni.
Ákæruvaldið hafi í þessu máli lýst því yfir að dagbókarfærslurnar hafi ekkert sönnunargildi í málinu. Þá hafi ákærðu „ekki bent á einhver tiltekin atriði sem þeir telja að finna í umræddum gögnum eða útskýrt hvernig þau geti haft áhrif við úrlausn þessa máls.
Samkvæmt framangreindu verður ekkert talið liggja fyrir um að þær dagbókarfærslur sem varnaraðilar krefjast afhendingar á séu sönnunargögn um atvik máls sem ákæruvaldinu er skylt að leggja fram. Verður því jafnframt að hafna kröfum varnaraðila um afhendingu eða aðgang að þeim, líkt og nánar greinir í úrskurðarorði,“ segir í úrskurði Landsréttar sem lesa má hér.