Skoðun

Málamiðlun nauðsynleg á grunni löggjafar

Jón Gunnarsson skrifar
Sú kraftmikla umræða sem átt hefur sér stað á undanförnum vikum og mánuðum um orkumál verður að halda áfram. Umræðan hefur leitt ítrekað fram hversu mikilvægar orkuauðlindir okkar eru þjóðinni. Það kemur ekki á óvart, þar sem sjálfbær nýting þeirra gjörbreytti íslensku samfélagi. Með auðlindanýtingu sem leidd var af Sjálfstæðisflokknum var mögulegt að bjóða landsmönnum raforku á umtalsvert lægra verði en þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar.

Nú erum við á tímamótum. Í fyrsta skipti í áratugi boða sérfræðingar og stofnanir á þessu sviði að reikna megi með að skerða þurfi afhendingu á raforku innan fárra ára, verði ekki brugðist við. Það gengur auðvitað ekki í þessu orkuríka landi.

Með nýtingu endurnýjanlegrar raforku hefur okkur tekist að breyta íslensku samfélagi í grundvallaratriðum. Við höfum byggt upp fjölbreyttari tækifæri fyrir ungt fólk og byggðir landsins. Við hljótum öll að vera sammála um að samþjöppun byggðar á suðvesturhorni landsins sé ekki heppileg. Öll viljum við blómlega byggð um allt land. Til að svo megi verða þarf að skapa ný tækifæri sem tækniþróun í hefðbundnum atvinnugreinum gerir mögulegt. Ef Ísland á að bjóða framúrskarandi lífskjör verður að auka tekjur okkar af útflutningi sem treystir stoðir okkar til lengri tíma. Við eigum að leggja áherslu á nýja og græna atvinnustefnu m.a. á grundvelli grænnar orku. Má þar nefna tækifæri í matvælaframleiðslu, eldsneytisframleiðslu og gagnaversiðnaði. Í vikunni nefndi forseti Indlands tækifæri til uppbyggingar gagnavera á Íslandi. Glöggt er gests augað. Við þurfum að skapa ný tækifæri og tryggja lífsgæði um allt land fyrir unga fólkið okkar, annars er hætta á að það leiti á önnur mið.

Það er við þessar aðstæður sem ég gagnrýni umhverfisráðherra og segist ekki geta stutt ríkisstjórn sem fer fram með þá öfgastefnu sem hann boðar. Hér er málamiðlun nauðsynleg, á þeim grunni sem löggjafinn hefur lagt í þessum mikilvæga málaflokki.

Jón Gunnarsson. alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×