Erlent

Tæpur helmingur evrópskra trjátegunda í útrýmingarhættu

Kjartan Kjartansson skrifar
Blómstrandi hestakastaníutré á Englandi.
Blómstrandi hestakastaníutré á Englandi. Vísir/Getty
Hestakastaníutré er á meðal tæplega helmings ríflega fjögur hundruð evrópskra trjátegunda sem eru nú skilgreindar í útrýmingarhættu hjá Alþjóðanáttúruverndarsamtökunum. Trjánum stafar meðal annars ógn af aðgerðum manna, beint og óbeint.

Í skýrslu samtakanna IUCN er lagt mat á ástand 454 trjátegunda sem eru upprunnar í Evrópu, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Um 42% þeirra eru talin í útrýmingarhættu að einhverju leyti. Af þeim trjám sem eru aðeins til í Evrópu eru 58% í hættu.

Craig Hilton-Taylor, yfirmaður válista IUCN, segir niðurstöðurnar áhyggjuefni. Tré sé lífsnauðsynleg á jörðinni. Evrópsk tré séu uppspretta matar og skjóls fyrir fjölmargar dýrategundir eins og fugla og íkorna. Þau leiki jafnframt mikilvægt efnahagslegt hlutverk.

Ágangur mölflugna og sjúkdóma er það sem ógnar hestakastaníutrénu sem samtökin telja nú í nokkurri hættu á útrýmingu. Ýmislegt ógnar trjánum í Evrópu, þar á meðal meindýr, sjúkdómar, samkeppni við ágengar nýjar tegundir, skógareyðing, ósjálfbært skógarhögg, breytt landnotkun og skógareldar.

Luc Bas, forstjóri skrifstofu IUCN í Evrópu, segir að aðgerðir manna valdi hnignun trjátegunda um alla álfuna.

„Þessi skýrsla sýnir hversu slæmt ástandið er fyrir margar vanmetnar tegundir sem hafa ekki fengið athygli en eru bakbeinið í vistkerfum Evrópu og leggja sitt að mörkum til heilbrigðrar plánetu,“ segir Bas.

Önnur skýrsla bendir til þess að tæpur helmingur runnategunda í Evrópu sé í hættu á útrýmingu vegna eyðingar og taps víðerna í Evrópu auk landbúnaðar, ágengra nýrra tegunda og loftslagsbreytinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×