Haft er eftir Ásgeiri í Viðskiptablaðinu í dag að Pünk muni, eins og nafnið gefur til kynna, vera óformlegur og fjölbreyttur. Reynt verði að sameina margar stefnur og verður inntakið í anda veitingastaða á borð við Snaps og Tapasbarinn, þar sem fólk deilir réttum sín á milli í „partýstemningu.“ Stefnt sé að því að opna staðinn fyrir lok mánaðar.
„Við komum til með að vera með alls konar uppákomur og nálgun okkar á upplifun viðskiptavina verður fjölbreytt og margs konar í anda þess að vera svolítið pönk,“ segir Ásgeir við Viðskiptablaðið sem hefur fengið Bjart Elí Friðþjófsson til að fara með stjórnina í eldhúsinu. Bjartur var áður einn af yfirkokkunum á Grillmarkaðnum og á veitingastaðnum Kadeau í Danmörku, en sá síðarnefndi er í hópi Michelinstjörnuhafa.

Húsnæði Pünk hefur á síðustu árum hýst fjölda skammlífra veitingastaða en Ásgeir boðar gagngerar breytingar á rýminu undir leiðsögn hönnuðarins Leifs Welding, sem hefur m.a. hannað fyrrnefndan Grillmarkað, Sushi Social, Apótekið, Sæta svínið, Fjallkonuna og Hótel Geysi í Haukadal.
Pünk er ekki eini staðurinn sem Ásgeir vinnur í að koma á koppinn í miðborginni þessa dagana. Þannig er Ásgeir jafnframt einn þeirra sem kemur að opnun kaffihússins Laundromat í Austurstræti, eins og Sölvi Snær Magnússon greindi frá í samtali við Vísi fyrr í sumar. Laundromat verður í anda samnefnds staðar sem áður var í sama rými og er fyrirhugað að hann opni formlega þann 13. september næstkomandi.