Tvær erlendar konur sæta nú gæsluvarðhaldi eftir að hafa reynt að smygla samtals rúmlega einu kílói af kókaíni til landsins í lok síðasta mánaðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Í tilkynningu segir að konurnar hafi verið að koma saman með flugi frá Brussel í Belgíu þegar tollgæslan stöðvaði þær í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna gruns um að þær væru með fíkniefni. Þær voru í kjölfarið handteknar og færðar á lögreglustöð. Þar skilaði önnur konan af sér áttatíu pakkningum af kókaíni og hin rúmlega tuttugu.
Konurnar voru úrskurðaðar í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness. Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú málið.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri nafnlausum upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann. Einnig er hægt að koma ábendingum á framfæri á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurnesjum.

