Ófært er orðið til Landeyjahafnar frá Vestmannaeyjum og verða því breytingar á ferjusiglingum til og frá Eyjum.
Gamla ferjan, Herjólfur III, sigldi því til Þorlákshafnar nú klukkan 15:30 og mun snúa til baka hálf átta í kvöld. Farþegar sem áttu bókað í ferðir frá Landeyjahöfn klukkan 18:15 munu færast sjálfkrafa í ferðina, klukkustund síðar frá Þorlákshöfn.
Á vefsíðu Herjólfs er farþegum sem áttu bókað í aðrar ferðir en til Eyja klukkan 18:15 og frá Eyjum klukkan 14:30, bent á að hafa samband við afgreiðslu til þess að greiða úr flækjunni. Þá segir einnig á vef ferjunnar að útlit sé fyrir að einnig verði siglt til Þorlákshafnar á morgun, mánudaginn 26. ágúst.
Veðurstofan gaf í gærkvöld út gula viðvörun á Suðurlandi og virðast veðurguðirnir hafa staðið við sitt. Fyrsta bræla haustsins staðreynd.
Herjólfur III siglir til Þorlákshafnar
Andri Eysteinsson skrifar
